Forvalsyfirlýsing

Ég undirritaður hef ákveðið að gefa kost á mér í forvali Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavík, sem fram fer þann 7. mars nk. Ég er fæddur í Hafnarfirði þann 5. nóvember 1970. Ég er rafmagnsiðnfræðingur að mennt og hef sem slíkur aðallega unnið í fjarskiptageiranum og hátæknistörfum við virkjanamál. Ég mun sækjast eftir því að skipa 2-4. sætið í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð stendur nú á tímamótum þegar við blasir enduruppbygging þjóðfélagsins í kjölfar þeirra atburða sem skóku íslenskt samfélag síðustu misserin. Vinstrihreyfingin - grænt framboð mun ekki skorast undan þeirri ábyrgð sem felst í að endurskapa samfélag sem byggir á jöfnuði. Ég óska eftir stuðningi til að vinna að því verki.

Minn helsti styrkleiki er á sviði fjarskipta og tæknimála. Ég mun leggja mitt af mörkum til þess að hér megi byggja upp metnaðarfullt tæknisamfélag. Íslenskt samfélag einkennist af þekkingu og orku sem skapar okkur bæði sérstöðu og forskot. Lega landsins gefur auk þess mörg tækifæri sem ber að nýta.

Ég er þess fullviss að mín þekking og reynsla á ofangreindum sviðum muni nýtast afar vel í þeim verkefnum sem framundan eru. Af þeim ástæðum hef ég ákveðið að bjóða mig fram með það að markmiði að sinna þeim störfum af metnaði og alúð fyrir fólkið í landinu með stuðningi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

Brýnt er að kljást við afleiðingar hins efnahagslega hruns, ekki síst fyrir fjölskyldur landsins. Við þurfum að leita allra leiða til að mæta þeirra þörfum og nauðsynjum. Haga þarf sparnaðaraðgerðum þannig að stoðir fjölskyldna veikist ekki heldur styrkist. Hér á ég einkum við grunnstoðir þjóðfélagsins, svo sem húsnæðismál, almenn velferðarmál, menntun og þjónustu við sjúka og aldraða. Síðast en ekki síst þarf að tryggja atvinnu og rekstrargrundvöll fyrirtækja.

Tryggja verður að slæm skuldastaða fjölskyldna í landinu leiði ekki til gjaldþrota. Spyrna þarf við atvinnuleysi með því að styðja við nýsköpun, sprotafyrirtæki og önnur ný og efnileg fyrirtæki sem líkleg eru til árangurs.

Það þarf að endurskoða starfssemi sjávarútvegs og landbúnaðar í landinu. Leggja þarf aukna áherslu á sjálfbærni í þessum flokkum og leita leiða til að auka verðmætasköpun með öllum tiltækum ráðum. Ég mun leggja mikla áherslu á vistvæna sjávarútvegsstefnu. Að sama skapi vil ég sjá vistvænan og grænan landbúnað. Þessi stefna mun styðja við landsbyggðina og fjölga atvinnutækifærum til sjávar og sveita.

Við endurskoðun og hagræðingu allra þátta ríkiskerfisins verður að tryggja að grunnstoðum þjóðfélagsins sé ekki ógnað.

Hagræðingu þurfa Alþingi og yfirstjórn ríkisins að leiða með góðu fordæmi. Hér má nefna ráðuneyti, utanríkisþjónustu og aðstoðarfólk þingmanna. Spara mætti með fækkun nefnda, sameiningu tengdra ríkisstofnana og lækkun kostnaðar vegna æðstu stjórnenda þeirra.

Ég er talsmaður jafnréttis og réttlætis. Ég trúi því að jafnrétti kynjanna muni verða að veruleika. Til að svo verði þarf að setja kraft í þann málaflokk og ekki vil ég láta þar við sitja heldur taka þátt.

Stefna Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í jafnréttismálum er ein helsta ástæða þess að ég skráði mig í hreyfinguna þann 1. febrúar 2009, en fram að því hafði ég alla tíð verið óflokksbundinn.

Ég vil vernda hina einstæðu íslensku náttúru sem og auðlindir hafsins eftir bestu getu. Með stefnu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í huga vil ég leita leiða til að nýta okkar miklu orku til annars konar reksturs en stóriðju. Eins og fram kemur hér að ofan vil ég beita mér fyrir nýtingu orkunnar á öðrum sviðum, svo sem til gagnavera og annarra tækifæra sem snúa að framförum í fjarskiptamálum og tækni. Ég mun beita mér fyrir sjálfbærri orkustefnu í samstarfi við þær góðu stofnanir sem við höfum nú þegar á Íslandi. Ég vil einnig beita mér fyrir notkun sólarorku í auknu mæli þar sem völ er á. Ég vil sjá aukna hvatningu ríkissins gagnvart landsmönnum sem kjósa vistvænni og grænni lifnaðarhætti. Ég vil sjá Ísland leiðandi í umhverfismálum á heimsvísu með fordæmi í sjálfbærni þjóðar.

Ég styð stefnu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í friðarmálum. Ég vil að Ísland standi utan hernaðarbandalaga en beiti sér þess í stað fyrir auknum friði.

Ég vil að Ísland opni á umræður um Evrópumál og meti hvort fara skuli til viðræðna um inngöngu í Evrópusambandið sem og myntsamstarf um evru.

Ég er kvæntur Ruth Mary Shortall, meistaranema í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands. Ég á tvo syni af fyrra hjónabandi, Harald Ara og Arnór Tuma.

 Reykjavík, 19. Febrúar 2009

Árni Haraldsson

Rafmagnsiðnfræðingur


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það væri gott fyrir Ísland að sjá fleiri svona, sama hver málstaðurinn er. Sanngirni og réttlætiskennd er kostur sem ætti að gera að skilyrði fyrir því að menn bjóði sig fram í að stjórna landinu. Ég hef alltaf kostið sjálfstæðistflokkinn en mun að sjálfsögðu skoða það vel þegar greinilega er að raðast gott fólk í aðra flokka.

Olafur Sigurvinsson (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 13:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband